Færsluflokkur: Bloggar
17.9.2008 | 20:13
Nammiskápurinn að tæmast
Við höfum verið svo upptekin við að borða allt nammið sem Steinvör kom með að ég hef bara ekkert komist í að blogga Frystirinn er enn fullur, enda allt of hollt að borða ýsu ... en ætli ég neyðist ekki til þess nú þegar aukakílóin eru farin að hrannast á mig.
Við fengum góða heimsókn um helgina. Steinvör og Kristín Jóna komu og voru hjá okkur í fjóra daga. Krakkarnir voru að springa úr fjöri yfir því að hittast og það var margt brallað. Farið í tívolí, dýragarðinn og svo skoðað hvað er hér í nágrenninu. Þær voru heppnar með veður því um leið og þær voru farnar til baka kom haust hér í Danmörku.
Lífið hér í Höfn (ég hef ákveðið að nota frekar gamalt og gott nafn á Kaupmannahöfn frekar en hið plebbalega Köben) er komið í fastar skorður. Leifur er búinn að vera í skóginum alla vikuna - þótt hann gráti úr sér augun þegar hann kveður okkur er hann kátur þegar hann kemur heim. Sem veit á gott. Rútan var komin í morgun þegar þeir feðgar komu út á leikskóla. Hann tók strax á rás því hann ætlaði ekki að missa af rútinni! En, svo þegar hann var sestur inn tóku tárin að renna. Hann sofnar því miður alltaf á leiðinni heim, sem þýðir að hann er enn erfiðari en vanalega að fara að sofa. Næsta ráð er að gefa honum flóaða mjólk - gott húsráð frá nágrannakonu okkar.
Hildur er búin að vera rosalega dugleg í skólanum, sem og að hjóla í skólann. Þetta er engin smáspotti! Jón hitti Dorthe, kennarann hennar, í morgun og hún sagði að þetta gengi alveg svakalega vel. Hildur er farin að skilja heilmikið og tala smávegis. Þetta er semsagt allt að koma.
Svo er litli stubbur lasinn en við vonum að það gangi fljótt yfir.
Skólinn hjá Jóni er að komast á skrið. Í vikunni reifst hann svo heiftarlega við indverska bekkjarsystur sína í stórmarkaði að fólk hætti að raða í poka af undrun yfir þessari uppákomu! Það versta er að rifrildið snerist um að hann hefði gleymt að koma börnunum í pössun á réttum tíma! Þetta var reyndar (sem betur fer, því ekki vildi ég að hann ætti viðhald) sálfræðitilraun til að kanna viðbrögð fólks við pínlegum/óþægilegum aðstæðum. Aumingja Jón er hættur að versla í Fötex eftir þetta og fer nú bara í Lidl og Netto. Reyndar var tveimur úr bekknum hent út úr verslunarmiðstöðinni Frederiksberg Center, af öryggisvörðum, og dönsk kona fór að skipta sér af rifrildi annarra tveggja, og lét víst fúkyrðunum rigna yfir þá, fullum af kynþáttafordómum. Þegar henni var sagt að þetta væri skólaverkefni varð hún enn reiðari. En við hér í Revíugarðinum erum hvorki reið né leið heldur bara kát.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.9.2008 | 17:25
Þetta er mér að kenna
Þetta er bara af því að ég er flutt til Danmerkur og tími ekki að kaupa neitt í matinn. Er bara með fyrstinn fullan af íslenskri ýsu og lambakjöti ...
Danir spara við sig í mat | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.9.2008 | 20:01
Klukkuð
Ég var klukkuð! Best að vinda sér í klukkuna:
Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
- Afgreiðslustúlka í versluninni Rangá. Frahmlenging á búðarleiknum.
- Fiskvinnslutæknir í Hraðfrystihúsi Fáskrúðsfjarðar. Sérlega uppbyggilegt - eða þannig.
- Flugfreyja hjá Air Atlanta - mjög skemmtilegur tími.
- Umönnun aldraðra í Sankt Elisabeth Alten- und pflegeheim. Eftir það hef ég verið kölluð Schwester Sigrid í góðra vina hópi.
Fjórar bíómyndir sem ég held upp á
- Fjögur brúðkaup og jarðarför, alltaf sígild.
- Pulp Fiction, frábær mynd með óvæntri framvindu.
- Rocky 1, ég meina Silvester Stallone er laaaaangflottastur.
- Brúðguminn, meiriháttar mynd sem kom mér á óvart.
Fjórir staðir sem ég hef búið á
- Kolfreyjustaður, Fáskrúðsfirði. Fegursti staður í heimi.
- Fjarðarstræti, Ísafirði, þar kynntist ég Línu æskuvinkonu.
- Jafnakri, Garðabæ, draumhúsið og það sem ég sakna mest frá Íslandi ...Já, ég veit að það er skrítið en þetta er einfaldlega frábært hús.
- Elga Olgas vej, Kaupmannahöfn.... og er þá fátt eitt talið þar sem ég hef búið á 6 stöðum sl. 18 mánuði.
Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar (ég horfi ekki mikið á sjónvarp en...)
- Beðmál í borginni. Kemur mér alltaf í gott skap. Ég elska þessa þætti. Ef einhver er í vandræðum með að gefa mér gjafir þá fæst serían á DVD ...
- Aðþrengdar eiginkonur. Vildi að líf mitt sem hjemmegoende væri jafnspennandi og þeirra.
- Ljóta Bettý, Bettý er neflilega svo sæt.
- 24 dúndurþættir sem eru svo spennandi!!
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
- Kýpur
- Ísrael
- Írland
- Bandaríkin
Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
- mbl.is
- visir.is
- eyjan.is
- facebook.com
Fernt sem ég held uppá matarkynnis
- góðir ostar, svo sem Primadonna
- rjúpur
- eplakakan hennar ömmu
- góðir kjúklingaréttir
Fjórar bækur sem ég hef lesið oft
- Anna í Grænuhlíð, allar bækurnar
- Í barndómi, eftir Jakobínu frænku mína en þar skrifar hún um bernsku sína á Hornströndum. Afar gaman að lesa um langömmu mína og langafa og fleiri ættingja.
- Á morgun segir sá lati, bók um tímastjórnun og frestunaráráttu sem hrjáir mig. Þessi bók er alltaf á náttborðinu mínu og ég er einhvern veginn alltaf að lesa hana í þeirri veiku von að verða skipulögð og með allt á hreinu.
- Hús andanna, las hana oft þegar ég var yngri. Ætti kannski að tékka á henni fljótlega.
Fjórir bloggarar sem ég klukka (veit að það er hvort eð er búið að klukka þau)
- Helga
- Solla
- Sigrún
- Friðjón
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.9.2008 | 20:46
Skemmtun og skovbörnehave
Þá er enn ein vikan byrjuð. Ég var búin að skrifa heljarinnar færslu um KRAM rannsóknina sem ég tók þátt í sl. föstudag en sú færsla hvarf út í loftið og ég veit ekki á hvaða bloggsíðu hún endaði. EN ... ég lenti semsagt í úrtaki hjá Lýðheilsustofnun Danmerkur (eða eitthvað) þar sem heilsufar mitt var kannað í þaula. Blóðþrýstingurinn var mældur, sem og hæð, þyngd og beinþéttni, það var tekið blóð, ég var látin hjóla og ég veit ekki hvað og hvað. Útkoman er sú, sem ég átti von á, að ég er við hestaheilsu en með lélegt þol. Kom mér ekki á óvart eftir 3 óléttur á 6 árum sem þýðir að það er erfitt að koma sér af stað í einhverja hreyfingu, fyrir utan að það er erfitt að finna tíma þegar maður á þrjá litla krakka. Mér var boðið að taka þátt í áframhaldandi könnun og vera með skrefateljara næstu þrjá mánuðina með það að markmiði að auka hreyfingu og taka 15000 skref á dag. Eftir þessa þrjá mánuði verður svo heilsufarið og þá þolið, mælt aftur og borið saman við daginn í dag. Mér leist vel á þetta ... en nenni þessu varla. Er að hugsa málið.
En að öðru. Var í dag með Leifi í aðlögun í skóginum. Þetta var dálítið sérstakt. Ég veit ekki alveg hvernig mér lýst á þetta! Hann fer einn á morgun. Ég ætla aðeins að bíða og sjá hvort við höfum hann áfram í þessum leikskóla. Í gær var svo hanastélsboð í skólanum hjá eiginmanninum. Við fórum öllsömul og það var mjög gaman að sjá þennan hóp. Virkilega múltíkúltí. Mig langaði mest að fara í þennan skóla líka. Fer kannski þegar Jón er búinn. Á sunnudaginn tókum við stefnuna á Strikið, bara svona til að viðra mannskapinn. Hittum Hönnu (móðursystur Jóhönnu Maríu, vinkonu Hildar) sem var í tívolíferð með dætur sínar. Á laugardaginn fórum við í Haustfest í SFO, eða tómstundaheimilinu hjá Hildi. Þar var grillað, boðið upp á kokteila á barnabarnum og svo var bjór fyrir fullorðna fólkið. Þetta var virkilega skemmtilegt. Svo enduðum við daginn á að heimsækja Íslendinga sem við höfum aldrei hitt áður en áttum með þeim skemmtilega kvöldstund. Í kvöld fengum við svo dúndurheimsókn frá Tobbu vinkonu sem kom keyrandi frá Svíþjóð. Við erum strax farin að planleggja heimsókn til hennar í viku 40 (svona skipuleggja Danirnir allt). Það tekur ekki nema 3 tíma að keyra til hennar. Já, og svo keyptum við hjólavagn í dag til að geta hjólað um allt með drengina. Keyptum notað, auðvitað. Enda orðin sparsöm og umhverfisvæn ... ja eða bara svona nísk!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.8.2008 | 20:54
Skólagangan byrjar - á ný
Á morgun verður eiginmaðurinn námsmaður á ný! Hildur spurði hann við matarborðið hvort hann færi í grunnskóla eða háskóla ... Leifur heldur áfram í aðlögun á leikskólanum sínum, sem gengur vel, og Hildur fer í skólann en það hefur komið dálítið bakslag í það. Hún harðneitaði að fara í skólann á föstudaginn og endaði með að koma hálftíma of seint eftir mikið havarí. Pabbi hennar sat með henni í tíma í smástund á meðan hún var að jafna sig en ég vona að morgundagurinn verði betri.
Helgin var nokkuð annasöm. Solla og Veróníka komu í heimsókn á föstudaginn. Á laugardaginn fórum við á Amagerstrand, sem er æði, þaðan á Nýhöfn að hitta Guðrúnu Hrund og loks í Lindevanghave þar sem við grilluðum með nýju bestu vinum okkar, þ.e. Íslendingunum sem búa hér í Revyhaven. Í dag fórum við til Palla og Júlíönu og svo verður nóg að gera í næstu viku.
Jón Áki, fyrrum fiskifæla, veiddi eins og hann hefði aldrei gert neitt annað í veiðiferðinni. Hann hirti 8 silunga og sleppti allavega öðru eins. Þessir átta fara í reyk og verða síðan borðaðir með bestu lyst hér í Köben.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.8.2008 | 21:15
Sprett úr spori
Lindehuset er dálítið öðruvísi leikskóli en sá besti í heimi, sem er auðvitað Ásar. Á meðan við foreldrarnir vorum á fundi með furðulegum leikskólakennara var Leifur að leika sér með krökkunum á deildinni sinna. Þegar við komum að sækja hann vildi hann ekki koma heim því hann ætti eftir að fara í rútuna, auk þess sem hann hafði ekkert fengið að borða. Honum leist greinilega mjög vel á sig. Við kvöldmatarborðið sagði hann svo hróðugur við systur sína: ,,Hildur, það eru stelpur á leikskólanum mínum." Hann er vanur að vera bara með strákum þannig að honum fannst þetta greinilega það merkilegasta við leikskólann.
Annars fórum við hjónin í langan göngutúr í dag, fórum í ,,Kringluna" í Frederiksberg að kaupa leikskólatösku og nestisbox fyrir Leif. Fengum okkur danska pylsu og hefðum viljað bjór en slepptum honum, enda miður miðvikudagur. Sáum rosalega skrítinn náunga, svona piercing-gaur sem var ekkert nema tattú og svo var hann með risastórt gat í eyranu en það furðulegasta var að hann var kominn með tvö horn á ennið!! Aldrei séð svona lið nema í sjónvarpinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2008 | 20:18
Leikskóli
Leifur byrjar formlega í leikskólanum á morgun. Hann hefur talið dagana þar til hann byrjar en í dag gleymdi hann þessu alveg. Ég gleymdi reyndar að minnast á þetta við hann en þá verður þetta bara óvænt ánægja fyrir hann í fyrramálið. Ég er allavega spennt og vona að honum eigi eftir að líða vel í leikskólanum og hafa það gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2008 | 08:56
Ég líka!!
Við viljum ekkert silfur þegar gull er í boði. Og áfram ÍSLAND!!
„Ég vil fá gullið og þjóðsönginn“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2008 | 20:15
Haukur kanilsnúður
Haukur komst í kanil í dag. Óblandaðan, beint úr dósinni. Fékk sér eins og eina skeið. Ég hélt ég yrði að hringja í 112 en þetta fór betur en á horfðist. Aumingja litli drengurinn kúgaðist og tók andköf og orgaði svo í þokkabót þegar ég reyndi að skola á honum munninn. Systkini hans horfðu stóreygð á þetta og sögðu ... er hann veikur? Hann náði þó að jafna sig en ég verð að viðurkenna að hjartað í mér tók nokkra aukakippi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.8.2008 | 19:07
Leifur í Lindehuset
Það ríkir mikil gleði á heimilinu því Leifur Már byrjar á leikskóla í næstu viku!! Okkur var sagt að eina plássið sem væri laust í Frederiksberg væri í Lindehuset svo við fórum þangað að skoða í dag og leist rosalega vel á. Við vorum búin að skoða annan sem við sóttum um pláss á en okkur leist enn betur á þennan. Leifur tekur við plássi af íslenskri stúlku sem er að flytja heim aftur, eftir því sem leikskólakennarinn sagði okkur! Skemmtileg tilviljun. Lindahuset er hér bak við svo við sjáum það út um svefnherbergisgluggann okkar. Þetta er svokallaður skovbarnehave sem þýðir að börnin eru tvær vikur í skóginum og tvær í bænum. Skólinn er með hús úti í sveit og þangað er börnunum ekið á morgnana og heim aftur seinnipartinn. Þau læra allt um náttúrna og upplifa hvernig það er að búa í sveit en þegar þau eru í bænum er farið í ferðir hér um nágrennið, farið í dýragarðinn og almenningsgarða. Okkur finnst þetta meiriháttar sniðugt! Leifur hefur verið með mikla heimþrá og spurt mikið um Ísland. Hann segist ekki vilja eiga heima hér lengur en eitt ár - en það er e.t.v. vegna þess að hann þekkir ekkert annað en flutninga blessað barnið. Haukur á að fara á sama leikskóla en það er ekki pláss fyrir hann og 33 á biðlista á undan honum á þennan leikskóla. Það skiptir ekki eins miklu máli því hann er bara kátur hvar sem hann er.
Í dag urðum við svo stoltir eigendur AEG-ryksugu. Ryksugan okkar í Jafnakrinum er sem sagt búin að eignast systur ... Ég hefði aldrei trúað því en ég fór í röð á útsölu til að næla mér í ódýra ryksugu. Reyndar fannst mér þetta bráðfyndið. Þarna var fullt af fólki að kaupa sér klósett, klósettsetur og eldivið á útsölu - og auðvitað ryksugur. Fyrir utan búðina var boðið upp á pylsur og öl! Já, þetta mættu íslenskir kaupmenn taka sér til fyrirmyndar. Þá myndi ég sko ekki láta mig vanta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Mínir tenglar
Fjölmiðlar
Vinnan
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar