Nammiskápurinn að tæmast

Við höfum verið svo upptekin við að borða allt nammið sem Steinvör kom með að ég hef bara ekkert komist í að blogga Smile Frystirinn er enn fullur, enda allt of hollt að borða ýsu ... en ætli ég neyðist ekki til þess nú þegar aukakílóin eru farin að hrannast á mig.

Við fengum góða heimsókn um helgina. Steinvör og Kristín Jóna komu og voru hjá okkur í fjóra daga. Krakkarnir voru að springa úr fjöri yfir því að hittast og það var margt brallað. Farið í tívolí, dýragarðinn og svo skoðað hvað er hér í nágrenninu. Þær voru heppnar með veður því um leið og þær voru farnar til baka kom haust hér í Danmörku. 

Lífið hér í Höfn (ég hef ákveðið að nota frekar gamalt og gott nafn á Kaupmannahöfn frekar en hið plebbalega Köben) er komið í fastar skorður. Leifur er búinn að vera í skóginum alla vikuna - þótt hann gráti úr sér augun þegar hann kveður okkur er hann kátur þegar hann kemur heim. Sem veit á gott. Rútan var komin í morgun þegar þeir feðgar komu út á leikskóla. Hann tók strax á rás því hann ætlaði ekki að missa af rútinni! En, svo þegar hann var sestur inn tóku tárin að renna. Hann sofnar því miður alltaf á leiðinni heim, sem þýðir að hann er enn erfiðari en vanalega að fara að sofa. Næsta ráð er að gefa honum flóaða mjólk - gott húsráð frá nágrannakonu okkar.

Hildur er búin að vera rosalega dugleg í skólanum, sem og að hjóla í skólann. Þetta er engin smáspotti!  Jón hitti Dorthe, kennarann hennar, í morgun og hún sagði að þetta gengi alveg svakalega vel. Hildur er farin að skilja heilmikið og tala smávegis. Þetta er semsagt allt að koma.

Svo er litli stubbur lasinn en við vonum að það gangi fljótt yfir.

Skólinn hjá Jóni er að komast á skrið. Í vikunni reifst hann svo heiftarlega við indverska bekkjarsystur sína í stórmarkaði að fólk hætti að raða í poka af undrun yfir þessari uppákomu! Það versta er að rifrildið snerist um að hann hefði gleymt að koma börnunum í pössun á réttum tíma! Þetta var reyndar (sem betur fer, því ekki vildi ég að hann ætti viðhald) sálfræðitilraun til að kanna viðbrögð fólks við pínlegum/óþægilegum aðstæðum. Aumingja Jón er hættur að versla í Fötex eftir þetta og fer nú bara í Lidl og Netto. Reyndar var tveimur úr bekknum hent út úr verslunarmiðstöðinni Frederiksberg Center, af öryggisvörðum, og dönsk kona fór að skipta sér af rifrildi annarra tveggja, og lét víst fúkyrðunum rigna yfir þá, fullum af kynþáttafordómum. Þegar henni var sagt að þetta væri skólaverkefni varð hún enn reiðari. En við hér í Revíugarðinum erum hvorki reið né leið heldur bara kát.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er gott að þið borðið nammið.  Nammi namm.  Hér á bæ var pasta með geitaosti og hráskinku í kvöldmatinn, frá kaupmanninum þínum á horninu , svo smá chilipipar út á. Rosalega gott.  Við Kristín söknum ykkar, það var svo gaman að koma til ykkar. Svo er miklu auðveldara að heimsækja ykkur í huganum því núna veit maður hvernig þetta allt lítur út hjá ykkur.    Hefði viljað sjá Jón Áka rífast í búðinni    það hefur ekki verið auðvelt að gera þetta, ég hefði sprungið úr hlátri í hans sporum.    Jæja, verð að fara að koma mér í háttinn.    Hér er bálhvasst annað kvöldið í röð.  Kveðja, St.

Steinvör (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 00:21

2 identicon

Góðan og blessaðan daginn Hafnarbúar. Hvað er Jón Áki að læra? Djö.... hefði ég viljað vera fluga á vegg og geta fylgst með þessu rifrildi.Var enginn í felum að taka þetta upp til að getað skoðað viðbrögð fólks?  Og annað .Síðan hvenær er þessi mynd af þér???? Algjör snilld. Kv Guðný frænka

Guðný frænka (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 13:00

3 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

En ótrúlega fyndid verkefni. Ég vildi óska ad skólinn minn hefdi verid svona skemmtilegur....

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 18.9.2008 kl. 19:15

4 identicon

Sæl og blessuð öll.

Mikið væri gaman ef þið lituð upp út sælgætishrúgunni og skelltuð inn nokkrum nýjum myndum af elsku börnunum...Og ykkur líka.

Tveir mánuðir eru langir í lífi ömmu.

Kossar og klemm.

Imba amma-mamma- tengdamamma.

Imba amma - mamma - tengdó (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 12:55

5 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Hvurnig væri að Sigga og Imba kæmu sér um webcam, þá getur amman glápt á börnin daginn langan;)

Hlakka til að hitta ykkur eftir 11 daga ;)

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 19.9.2008 kl. 18:24

6 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Enn í namminu ??  eða bara að hvíla þig fyrir innrás Akureyringanna.  8 dagar eftir.....

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 22.9.2008 kl. 17:43

7 identicon

Fæst ekkert nammi í danmörk? Eða er íslenskt nammi bara best? Lentu ekki í því sama og Styrmir og Thelma. Geyma nammið, spara það smá. Og svo rennur það út á dagsetningu haha mjög gáfulegt. Fátt ógeðslegra en eldgamalt nammi.Svo bara borða allt STRAX. Kærar kveðjur Guðný frænka (sem er í nammistuði heima á Íslandi)

Guðný frænka (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 18:12

8 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

Sigga, thad fæst íslenskt nammi í Irma. Thar er líka hægt ad kaupa Skyr og ég keypti slatta af íslensku lambakjøti á tilbodi um daginn. Ég hef líka keypt íslenskt vatn á fløsku thar.

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 22.9.2008 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband