Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Skólagangan byrjar - á ný

Á morgun verður eiginmaðurinn námsmaður á ný! Hildur spurði hann við matarborðið hvort hann færi í grunnskóla eða háskóla ... Leifur heldur áfram í aðlögun á leikskólanum sínum, sem gengur vel, og Hildur fer í skólann en það hefur komið dálítið bakslag í það. Hún harðneitaði að fara í skólann á föstudaginn og endaði með að koma hálftíma of seint eftir mikið havarí. Pabbi hennar sat með henni í tíma í smástund á meðan hún var að jafna sig en ég vona að morgundagurinn verði betri.

Helgin var nokkuð annasöm. Solla og Veróníka komu í heimsókn á föstudaginn. Á laugardaginn fórum við á Amagerstrand, sem er æði, þaðan á Nýhöfn að hitta Guðrúnu Hrund og loks í Lindevanghave þar sem við grilluðum með nýju bestu vinum okkar, þ.e. Íslendingunum sem búa hér í Revyhaven. Í dag fórum við til Palla og Júlíönu og svo verður nóg að gera í næstu viku.

Jón Áki, fyrrum fiskifæla, veiddi eins og hann hefði aldrei gert neitt annað í veiðiferðinni. Hann hirti 8 silunga og sleppti allavega öðru eins. Þessir átta fara í reyk og verða síðan borðaðir með bestu lyst hér í Köben.

 


Sprett úr spori

Lindehuset er dálítið öðruvísi leikskóli en sá besti í heimi, sem er auðvitað Ásar. Á meðan við foreldrarnir vorum á fundi með furðulegum leikskólakennara var Leifur að leika sér með krökkunum á deildinni sinna. Þegar við komum að sækja hann vildi hann ekki koma heim því hann ætti eftir að fara í rútuna, auk þess sem hann hafði ekkert fengið að borða. Honum leist greinilega mjög vel á sig. Við kvöldmatarborðið sagði hann svo hróðugur við systur sína: ,,Hildur, það eru stelpur á leikskólanum mínum." Hann er vanur að vera bara með strákum þannig að honum fannst þetta greinilega það merkilegasta við leikskólann.

Annars fórum við hjónin í langan göngutúr í dag, fórum í ,,Kringluna" í Frederiksberg að kaupa leikskólatösku og nestisbox fyrir Leif. Fengum okkur danska pylsu og hefðum viljað bjór en slepptum honum, enda miður miðvikudagur. Sáum rosalega skrítinn náunga, svona piercing-gaur sem var ekkert nema tattú og svo var hann með risastórt gat í eyranu en það furðulegasta var að hann var kominn með tvö horn á ennið!! Aldrei séð svona lið nema í sjónvarpinu.


Leikskóli

Leifur byrjar formlega í leikskólanum á morgun. Hann hefur talið dagana þar til hann byrjar en í dag gleymdi hann þessu alveg. Ég gleymdi reyndar að minnast á þetta við hann en þá verður þetta bara óvænt ánægja fyrir hann í fyrramálið. Ég er allavega spennt og vona að honum eigi eftir að líða vel í leikskólanum og hafa það gott.


Haukur kanilsnúður

Haukur komst í kanil í dag. Óblandaðan, beint úr dósinni. Fékk sér eins og eina skeið. Ég hélt ég yrði að hringja í 112 en þetta fór betur en á horfðist. Aumingja litli drengurinn kúgaðist og tók andköf og orgaði svo í þokkabót þegar ég reyndi að skola á honum munninn. Systkini hans horfðu stóreygð á þetta og sögðu ... er hann veikur? Hann náði þó að jafna sig en ég verð að viðurkenna að hjartað í mér tók nokkra aukakippi.


Leifur í Lindehuset

Það ríkir mikil gleði á heimilinu því Leifur Már byrjar á leikskóla í næstu viku!! Okkur var sagt að eina plássið sem væri laust í Frederiksberg væri í Lindehuset svo við fórum þangað að skoða í dag og leist rosalega vel á. Við vorum búin að skoða annan sem við sóttum um pláss á en okkur leist enn betur á þennan. Leifur tekur við plássi af íslenskri stúlku sem er að flytja heim aftur, eftir því sem leikskólakennarinn sagði okkur! Skemmtileg tilviljun. Lindahuset er hér bak við svo við sjáum það út um svefnherbergisgluggann okkar. Þetta er svokallaður skovbarnehave sem þýðir að börnin eru tvær vikur í skóginum og tvær í bænum. Skólinn er með hús úti í sveit og þangað er börnunum ekið á morgnana og heim aftur seinnipartinn. Þau læra allt um náttúrna og upplifa hvernig það er að búa í sveit en þegar þau eru í bænum er farið í ferðir hér um nágrennið, farið í dýragarðinn og almenningsgarða. Okkur finnst þetta meiriháttar sniðugt! Leifur hefur verið með mikla heimþrá og spurt mikið um Ísland. Hann segist ekki vilja eiga heima hér lengur en eitt ár - en það er e.t.v. vegna þess að hann þekkir ekkert annað en flutninga blessað barnið. Haukur á að fara á sama leikskóla en það er ekki pláss fyrir hann og 33 á biðlista á undan honum á þennan leikskóla. Það skiptir ekki eins miklu máli því hann er bara kátur hvar sem hann er.

Í dag urðum við svo stoltir eigendur AEG-ryksugu. Ryksugan okkar í Jafnakrinum er sem sagt búin að eignast systur ... Ég hefði aldrei trúað því en ég fór í röð á útsölu til að næla mér í ódýra ryksugu. Reyndar fannst mér þetta bráðfyndið. Þarna var fullt af fólki að kaupa sér klósett, klósettsetur og eldivið á útsölu - og auðvitað ryksugur. Fyrir utan búðina var boðið upp á pylsur og öl! Já, þetta mættu íslenskir kaupmenn taka sér til fyrirmyndar. Þá myndi ég sko ekki láta mig vanta.


Gardínur koma í ljós

Jæja, þá eru loksins komnar gardínur fyrir svefnherbergisgluggana - þótt fyrr hafi verið! Það tekur bara svo langan tíma að taka stórar ákvarðanir, eins og t.d. hvernig gardínur maður ætli að hafa ... Það er líka búið að setja upp ljós í öllum herbergjum nema stofunni og núna skiljum við ekki hvernig við gátum verði hér í myrkri (á kvöldin auðvitað - hér er bjart á daginn) í þessar næstum fjórar vikur sem við höfum búið hér.

Erum líka búin að fjárfesta í skrifborði sem Jón er einmitt að setja saman núna. Föttuðum að það mun ekki henta svo vel að hann hafi námsbækurnar sínar á morgunverðarborðinu. Þetta verður líka stjórnstöð heimilisins þar sem farið verður yfir bókhaldið, ákveðið hver vikumatseðilinn verður o.s.frv. Las nefnilega einu sinni bók sem heitir Á morgun segir sá lati og þar var sagt frá konu sem fékk sér skrifborð til að koma skipulagi á líf sitt. Þetta skrifborð er því meira en bara einfalt skrifborð!!

Fórum í heimsókn til Sollu í gær, í fyrsta sinn síðan við fluttum út. Hún býr í Frederikssund sem er í svona 40 mín. fjarlægð frá Kaupmannahöfn. Virkilega skemmtilegur bær og gaman að heimsækja Sollu og fjölskyldu. Eigum örugglega eftir að verða fastagestir hjá henni í vetur. Krakkarnir léku við Freyju og Malthe, stjúpsonur Sollu, var einstaklega góður við Hauk. Hef sjaldan hitt krakka á hans aldri sem er jafnbarngóður. Aumingja Haukur átti svo sannarlega skilið að fá einhvern til að stjana í kringum sig því stóri bróðir hans hefur ekki verið neitt sérlega mjúkhentur við hann undanfarið - svo vægt sé til orða tekið.

Á morgun heldur svo skólinn áfram en á miðvikudaginn flýgur Jón Áki heim í VEIÐI. Já, svona eru þessir fátæku stúdentar. Fljúga á milli landa í silungaveiði! Hann kemur sennilega klyfjaður til baka, þó ekki af silungi, ef ég þekki hann rétt því hann er algjör fiskifæla, heldur af drasli sem við héldum að við þyrftum ekki á að halda en vantar núna bráðnauðsynlega.


Hjólað og skólað

Höfum verið í hjólaleiðangri í dag. Keyptum okkur bæði notuð hjól og þá vantar okkur bara vagn fyrir strákana og þá getum við öll farið að hjóla! Hildur er enn ánægð í skólanum en á dálítið erfitt með að vakna á morgnana. Keyptum mútur í dag en ef hún verður dugleg að vakna og fara að sofa í heila viku fær hún Gæludýradót í verðlaun.

Skóli og skyldur

Skólaganga Hildar gengur vonum framar. Þegar við sóttum hana eftir skóla í gær harðneitaði hún að fara heim og vildi fá að fara í Thorvald Fritidsordning sem er Þorvaldur frístundaheimili á okkar ástkæra ylhýra. Hún var ótrúlega vel stemmd og er enn. Við vonum bara að þetta haldist svona áfram. Í dag fer hún svo sjálf á frístundaheimilið á meðan við foreldrarnir förum í gardínuleiðangur. Við erum orðin hálfþreytt á að búa í fiskabúri en hér í íbúðinni eru síst færri gluggar en í Jafnakri og allir gólfsíðir. Fengum svo óvænt símtal í gær en vinir okkar eru hér í bæ og við ætlum að hitta þá í dag eða næstu daga.


Skóladagurinn

Hildur byrjaði í skólanum í gær. Við hjónin fórum með henni og pabbi hennar var svo eftir með henni í skólastofunni. Henni leist vel á þetta allt saman og er spennt að læra dönskuna. Kennarinn heitir Dorthe og er sérmenntaður í að kenna nýbúum. Okkur leist mjög vel á hana. Skólinn var settur á útisvæðinu þar sem allir sungu lag og einn kennarinn spilaði undir á gítar. Ægilega heimilislegt! Ég ætlaði svo að ganga að Frederiksberg Center sem er Kringlan í Frederiksberg, en villtist um allan bæ! Fór auðvitað í vitlausa átt og var allt í einu komin niður að sjó. Var svo búin að vera á klukkutímagangi þegar ég rambaði á réttan stað. Samt var ég með götukort. Ég skil ekki hvernig ég fer að þessu. En þetta var ágætislabbitúr og góð líkamsrækt! Eftir skóla fórum við á Strikið með ömmu Ingu og fengum okkur svo að borða á Jensens Böfhus á Grábræðratorgi. Inga fer heim til Íslands í dag.

Ég fór síðan ein með Hildi í skólann í morgun. Við gengum út á Flintholmstation og auðvitað tók ég metróinn í vitlausa átt! Er alveg rugluð hérna - en læri vonandi af reynslunni. Sem betur fer vorum við tímanlega þannig að daman var komin 10 mín. of snemma í skólann, þrátt fyrir að mamman villtist. Við þurfum að fara afar snemma á fætur til að vera komnar á réttum tíma, eða um kl. 6.30. Þar sem við erum bæði svefnpurkur og alltaf of sein þurfum við svo sannarlega að temja okkur betri siði hér í Danaveldi. Eins gott að við erum strax byrjuð. Við höfum ekki enn fengið svar varðandi leikskóla fyrir strákana en vonum að það verði fljótlega. Leifur er farinn að biðja um að fara á leikskóla til að læra dönskuna og leika við aðra krakka. Vonandi fáum við fréttir af þessu fljótlega.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband