Færsluflokkur: Bloggar

Skólinn

Ég fór í fyrsta dönskutímann í dag. Er í bekk með konum frá Íran, Afganistan, Venesúela, Þýskalandi og Argentínu - held ég. Mér finnst mjög áhugavert að kynnast konum frá þessum löndum, sérstaklega Íran og Afganistan. Þær voru ekki með slæður og nokkuð sleipar í dönskunni. Nú þarf ég að dusta rykið af málfræðinni og rifja upp hvað infinitiv, verbum og allt þetta þýðir.

Leifur og Haukur voru veikir í dag, báðir með hita og kvef. Það er ekki nema von því hér er orðið mjög kalt og byrjað að snjóa.


Auglýsing eða frétt?

..einkar veglegt safn .. einkar tæmamdi viðhafnarútgáfa ..  þetta er eins og skrifað upp úr auglýsingu eða fréttatilkynningu frá Sálinni hans Jóns míns.


mbl.is Sálin tvítug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of mikið vald

Úff, ég er fegin að hafa getað keypt gjaldeyri af vinkonu minni og þurfa ekki að vera upp á Seðlabankann komin. Mér finnst svakalegt að þessi stofnun eigi að sjá um að útdeila láninu. Ætli flokksskýrteinið verði látið ráða því hver fær gjaldeyri og hver ekki? Mér sýnist þessi flokksskýrteini hafa komið mörgum ansi langt, t.d. í stjórnir hinna ,,nýju" banka ...


mbl.is Seðlabankinn stjórnar ráðstöfun IMF lánsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nu skal jeg lære dansk

Loksins fæ ég eitthvað annað hlutverk en að sjá um börn og bú hér í Danmörku. Ég byrja í dönsku á mánudaginn og mér sýnist á öllu að það verði nóg að gera. Ég á að mæta í skólann þrisvar í viku en það er ætlast til að maður komi í sprogcenter að æfa sig í framburði og læri heima í tvo tíma á dag. Ég fór í viðtal í dag þar sem ákveðið var í hvaða bekk ég fer. Ég fer í Modul 5 í 3b en skalinn er upp í Modul 6 svo ég náði fínu skori. Ég er strax farin að hlakka til að byrja í skólanum. Mér finnst danska miklu auðveldari en t.d. þýskan en það er dáldið erfitt að skilja Dani. Ég vona að ég verði orðin alveg flydende í vor ...

Annars er það að frétta að Hildur er með flensu og Haukur var veikur í síðustu viku. Hann fékk handa-fóta og munnveiki og hún er með hita og magaverk. Við hjónakornin höfum verið hálfslöpp líka en ekki fengið almennilega flensu. Svo á að byrja að snjóa hér í Danmörku um helgina. Krakkarnir bíða spenntir eftir snjónum ... en það er orðið hryllilega kalt hérna. Sjö gráðu hiti hér er eins og sjö stiga frost á Íslandi.

Um síðustu helgi fórum við svo í nafnaveislu hjá Veróníku Liv, hittum skemmtilegt fólk og borðuðum góðan mat. Afi hennar og amma voru svo elskuleg að taka jólapakkana með til Íslands. Ég hef aldrei verið eins snemma í jólagjafainnkaupum. Ætli þetta séu ekki dönsk áhrif, Danir eru með svakalegt skipulag á öllu ... svo batnandi fólki er best að lifa.

Loks langar mig að benda á bloggið hennar Eirar, nágranna og vinkonu, en hún hefur skrifað um kreppuna og áhrif hennar á líf okkar. Þar kemur m.a. fram að við erum farnar að spara alveg ROSALEGA:  www.nillingur.bloggar.is

Svo væri gaman að þið kvittuðuð fyrir innlitið!!

 


Enskukunnátta

Leifur er að læra dönsku og gengur vel. Hann talar oft dönsku við Hauk þegar þeir eru að leika sér saman. ,,Hold op med det, Hákúa," heyrist t.d. oft í honum en þetta er danski framburðurinn á hinu fagra nafni Haukur. Í  morgun sagðist hann líka kunna ensku en sagði svo: ,,Mamma, hvað þýðir Come Baby?"

Skovbörnehave

Vikurnar sem Leifur er í skóginum eru þannig að hann fer með rútu til Birkeröd, sem er í 40 mín. akstursfjarlægð frá Kaupmannahöfn. Leikskólinn er með eina hæð í stóru húsi, sem minnir mig dáldið á Klepp. Bæði því húsið er stórt og það var hæli fyrir geðveika hér á árum áður. Húsið hefur nú fengið nýtt hlutverk og þjónar 4-5 leikskólum. Það er í útjaðri bæjarins við skóginn, sem þau nota mikið við að fræða börnin og um leið til leikja. Börnin fara í göngutúra út í skóg þegar veður leyfir en leika sér inni ef veðrið er vont. Þau læra að þekkja gróðurinn, heiti á trjám og plöntum, tálga og fleira. Um daginn kveiktu þau bál og elduðu súpu. Svo fundu þau dauða moldvörpu og jörðuðu hana. Ég held að þetta sé stórfínt. Hins vegar er ég hrifnari af íslensku leikskólunum því mér finnst markvissara starf þar., a.m.k. á Ásum þar sem ég þekki vel til. Meira um það seinna. Þarf að skvera mér niður í bæ en við Eir erum að fara að hitta svissneska stelpu á Kóngsins nýjatorgi. Svo má ekki gleyma að minnast á að við fengum kærkominn gest í gærkvöldi. Takk fyrir komuna Katrín!!


Öðruvísi leikskóli

Óhætt er að segja að leikskólinn sem strákarnir eru í sé nokkuð ólíkur því sem við eigum að venjast. Utan frá séð gæti maður t.d. vart ímyndað sér að húsið sé leikskóli. Það er eins og hver önnur blokk. Á Íslandi sjást leikskólar langar leiðir. Leiksvæðið er á stærð við frímerki og það eru þarf að slá inn leynikóða til að komast inn í húsið og líka garðinn. Í kjallaranum er hjóla- og vagnageymsla en ég held að slíkt sé vart að finna á Íslandi. Stundum finnst mér þetta allt ferlega skrítið en þetta venst, eins og flest annað.


Strikið tekið á Strikið

Ég er alein heima í þriðja sinn á þremur mánuðum! Ótrúlegt að geta gert bara hvað sem er í dag. Er að hugsa um að taka strikið niður á Strik. Fá smá útlandafíling.  

Annars erum við að fara í boð í ráðhús Frederiksberg í kvöld. Þar er boð fyrir nýja Frederiksbergara og við látum okkur ekki vanta. Við getum kannski æft okkur í dönskunni ...

Svo get ég ekki annað en hneykslast á þessu svindli og svínaríi á Íslandi. Ég er nú bara fegin að vera hér í Danmmörku. Mér skilst að a.m.k ein ráðherra eða þingmaður verði að segja af sér á ári hérlendis. Fyrir minnstu afglöp. Heima á Íslandi geta ráðamenn valsað um og gert það sem þeim sýnist án þess að þurfa að taka ábyrgð á því. Ótrúlegt. Þess vegna vil ég að Ísland gangi í ESB, okkur sjálfum er vart treystandi fyrir stjórn landsins.


Hrekkjavaka og fleira

Við fórum í heljarinnar hrekkjavökupartí á föstudaginn, eða sjálfan Halloween-daginn. Þá er ég ekki að meina við hjónin heldur mig, Leif og Hildi. Jón var heima með Hauk, sem var lasinn. Danir halda upp á hrekkjavökuna með stæl. Allar búðir voru fullar af hrekkjavökudóti, graskerum og grímubúningum. Hildur var í vampírubúningi, Leifur í sjóræningja og ég eins og draugur, eða rétt eins og vanalega.


Diskó, gestir og ýsa

Við hjónakornin héldum upp á próflok eiginmannsins með því að bregða okkur í diskópartí hjá bekknum hans á laugardagskvöldið. Það var mikið fjör og gaman að hitta allt þetta fólk. Krakkarnir voru í góðu yfirlæti hjá Palla og Júlíönu. Í gær fengum við góða gesti. Sigrún og Páll voru í Kaupmannahöfn og komu til okkar í kaffi. Solla og Veróníka komu líka að heilsa upp á þau. Þetta voru fagnaðarfundir, end gaman að sjá þau hjónin. Í dag var Leifur heima því hann var með hitavellu og kvef. Haukur fór hins vegar á leikskólann og Eir var að vinna. Haukur er voða hrifinn af Eir og kallar á hana í gríð og erg: Eij, Eij! Hún passaði hann fyrir okkur á föstudaginn þegar ég fór í bæinn og stóð í röð í nærri 2 tíma til að fara á lagersölu. Já, maður lætur sig hafa ýmislegt í kreppunni en það besta er að ég keypti ekki neitt. Þrátt fyrir kulda og rigningarúða var sérdeilis gaman í röðunni því ég var með svo góðan félagsskap, þær Ingu Dóru og Beggu. Ég vann með Ingu Dóru á Árbæjarsafni og Beggu hjá Atlanta. Þær unnu hins vegar saman á Samúrai, japönskum veitingastað sem var langt á undan sinni samtíð í Reykjavík. Svo er ýsa í kvöldmatinn, en ýsulagerinn fer óðum minnkandi þannig að ef einhver á leið til Kaupmannahafnar og er með hálftómar töskur, þá má hinn sami hafa samband og kippa með sér nokkrum ýsum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband