Færsluflokkur: Bloggar

Gardínur koma í ljós

Jæja, þá eru loksins komnar gardínur fyrir svefnherbergisgluggana - þótt fyrr hafi verið! Það tekur bara svo langan tíma að taka stórar ákvarðanir, eins og t.d. hvernig gardínur maður ætli að hafa ... Það er líka búið að setja upp ljós í öllum herbergjum nema stofunni og núna skiljum við ekki hvernig við gátum verði hér í myrkri (á kvöldin auðvitað - hér er bjart á daginn) í þessar næstum fjórar vikur sem við höfum búið hér.

Erum líka búin að fjárfesta í skrifborði sem Jón er einmitt að setja saman núna. Föttuðum að það mun ekki henta svo vel að hann hafi námsbækurnar sínar á morgunverðarborðinu. Þetta verður líka stjórnstöð heimilisins þar sem farið verður yfir bókhaldið, ákveðið hver vikumatseðilinn verður o.s.frv. Las nefnilega einu sinni bók sem heitir Á morgun segir sá lati og þar var sagt frá konu sem fékk sér skrifborð til að koma skipulagi á líf sitt. Þetta skrifborð er því meira en bara einfalt skrifborð!!

Fórum í heimsókn til Sollu í gær, í fyrsta sinn síðan við fluttum út. Hún býr í Frederikssund sem er í svona 40 mín. fjarlægð frá Kaupmannahöfn. Virkilega skemmtilegur bær og gaman að heimsækja Sollu og fjölskyldu. Eigum örugglega eftir að verða fastagestir hjá henni í vetur. Krakkarnir léku við Freyju og Malthe, stjúpsonur Sollu, var einstaklega góður við Hauk. Hef sjaldan hitt krakka á hans aldri sem er jafnbarngóður. Aumingja Haukur átti svo sannarlega skilið að fá einhvern til að stjana í kringum sig því stóri bróðir hans hefur ekki verið neitt sérlega mjúkhentur við hann undanfarið - svo vægt sé til orða tekið.

Á morgun heldur svo skólinn áfram en á miðvikudaginn flýgur Jón Áki heim í VEIÐI. Já, svona eru þessir fátæku stúdentar. Fljúga á milli landa í silungaveiði! Hann kemur sennilega klyfjaður til baka, þó ekki af silungi, ef ég þekki hann rétt því hann er algjör fiskifæla, heldur af drasli sem við héldum að við þyrftum ekki á að halda en vantar núna bráðnauðsynlega.


Hjólað og skólað

Höfum verið í hjólaleiðangri í dag. Keyptum okkur bæði notuð hjól og þá vantar okkur bara vagn fyrir strákana og þá getum við öll farið að hjóla! Hildur er enn ánægð í skólanum en á dálítið erfitt með að vakna á morgnana. Keyptum mútur í dag en ef hún verður dugleg að vakna og fara að sofa í heila viku fær hún Gæludýradót í verðlaun.

Skóli og skyldur

Skólaganga Hildar gengur vonum framar. Þegar við sóttum hana eftir skóla í gær harðneitaði hún að fara heim og vildi fá að fara í Thorvald Fritidsordning sem er Þorvaldur frístundaheimili á okkar ástkæra ylhýra. Hún var ótrúlega vel stemmd og er enn. Við vonum bara að þetta haldist svona áfram. Í dag fer hún svo sjálf á frístundaheimilið á meðan við foreldrarnir förum í gardínuleiðangur. Við erum orðin hálfþreytt á að búa í fiskabúri en hér í íbúðinni eru síst færri gluggar en í Jafnakri og allir gólfsíðir. Fengum svo óvænt símtal í gær en vinir okkar eru hér í bæ og við ætlum að hitta þá í dag eða næstu daga.


Skóladagurinn

Hildur byrjaði í skólanum í gær. Við hjónin fórum með henni og pabbi hennar var svo eftir með henni í skólastofunni. Henni leist vel á þetta allt saman og er spennt að læra dönskuna. Kennarinn heitir Dorthe og er sérmenntaður í að kenna nýbúum. Okkur leist mjög vel á hana. Skólinn var settur á útisvæðinu þar sem allir sungu lag og einn kennarinn spilaði undir á gítar. Ægilega heimilislegt! Ég ætlaði svo að ganga að Frederiksberg Center sem er Kringlan í Frederiksberg, en villtist um allan bæ! Fór auðvitað í vitlausa átt og var allt í einu komin niður að sjó. Var svo búin að vera á klukkutímagangi þegar ég rambaði á réttan stað. Samt var ég með götukort. Ég skil ekki hvernig ég fer að þessu. En þetta var ágætislabbitúr og góð líkamsrækt! Eftir skóla fórum við á Strikið með ömmu Ingu og fengum okkur svo að borða á Jensens Böfhus á Grábræðratorgi. Inga fer heim til Íslands í dag.

Ég fór síðan ein með Hildi í skólann í morgun. Við gengum út á Flintholmstation og auðvitað tók ég metróinn í vitlausa átt! Er alveg rugluð hérna - en læri vonandi af reynslunni. Sem betur fer vorum við tímanlega þannig að daman var komin 10 mín. of snemma í skólann, þrátt fyrir að mamman villtist. Við þurfum að fara afar snemma á fætur til að vera komnar á réttum tíma, eða um kl. 6.30. Þar sem við erum bæði svefnpurkur og alltaf of sein þurfum við svo sannarlega að temja okkur betri siði hér í Danaveldi. Eins gott að við erum strax byrjuð. Við höfum ekki enn fengið svar varðandi leikskóla fyrir strákana en vonum að það verði fljótlega. Leifur er farinn að biðja um að fara á leikskóla til að læra dönskuna og leika við aðra krakka. Vonandi fáum við fréttir af þessu fljótlega.


Safaríferð

Í dag lögðum við land undir fót og fórum í ferðalag til Lollands, sem er hér fyrir sunnan. Fórum með Palla, Júlíönu, Sindra og ömmu Ingu í garð sem heitir Knuthenborg (www.knuthenborg.dk) en þetta er safarígarður þar sem villt dýr gang um laus. Við sáum m.a. kengúrur, strúta, apa af ýmsum stærðum og gerðum, tígrisdýr, nashyrninga, gíraffa, sebrahesta og geitur. Einu dýrin sem við flúðum undan voru þó aðgangsharðir geitungar! Þetta var hin besta ferð og krakkarnir skemmtu sér konunglega.


Ikke i Ikea

Aldrei þessu vant fórum við ekki í Ikea heldur í Skolen ved Bülowsvej sem er nýi skólinn hennar Hildar. Þar tók reffilegur kall á móti okkur og sýndi okkur skólann. Hildur fer ekki í móttökubekk heldur í 1.B. og fær mikinn stuðning til að læra málið. Í bekknum er íslensk stelpa sem hefur verið hér um tíma, en við þekkjum hana ekki. Á tómstundaheimilinu er auk þess íslenskur strákur en ég þekki einmitt mömmu hans. Okkur leist vel á skólann og reyndar leikskóla strákanna líka. Við bjuggumst við hálfgerðum hjöllum, enda búið að vara okkur við en þetta leit allt saman bara vel út. Við sjáum fram á að lífið falli í nokkuð fastar skorður í næstu viku, enda kominn tími til. Svo ætlum við að enda þetta ,,frí" með því að fara í Knuthenborg. Það er opinn dýragarður, eða eitthvað, þar sem dýrin ganga um frjáls og þá er ég auðvitað að meina ljón og tígrisdýr. Hins vegar fær mannfólkið ekki að fara úr bílunum ... nema það ætli sér að breytast í kvöldmat fyrir ljónin.

Að öðru. Jón er helv. sleipur í dönskunni en það vellur upp úr mér þýskan þegar ég opna munninn. Ég hef komist að því að ég er miklu betri í þýsku en ég hélt! Ég byrja stundum setningar á dönsku en enda þær á þýsku. T.d. spurði ég ungan afgreiðslumann hvort han hatte sandaler for so einen Junge. Danskan er í raun miklu einfaldari en þýskan þannig að ég er algjörlega að flækja málin.


Takk!

Takk fyrir allar góðu kveðjurnar í kommentunum. Það er sérlega gaman að lesa þær og ég vona að þið haldið áfram að kommentera og senda okkur skilaboð. Í dag ætlum við að taka upp úr nokkrum kössum. Er hætt að kíkja fyrst á listann hvað er í hverjum kassa, næ bara í þann næsta og tæmi hann. Það er miklu meiri jólapakkastemmning!! Svo þurfum við sennilega að fara í Ikea eina ferðina enn ... við þurfum varla að nota Garminn lengur því við erum farin að rata þangað! Reyndar fórum við í Fields í gær, sem er risakringla. Á heimleiðinni beygði Jón á röngum stað og við sótbölvuðum þeirri vitleysu - þar til við vorum komin á Íslandsbryggju og keyrðum fram hjá Sturlugötu, Reykjavíkurstræti, Egilsgötu og fleiri kunnuglegum götunöfnum. Þetta er virkilega skemmtilegt hverfi sem við ætlum að skoða betur við tækifæri. Svo fórum við fram hjá tívolíinu og miðbænum þannig að vitleysan endað sem skemmtiferð.


Dejligt i Danmark

Þá er maður loksins kominn í samband við umheiminn á ný. Það tekur sem sagt nokkurn tíma að fá nettenginu hérlendis ... Við erum enn að koma okkur fyrir. Íbúðin er mjög fín en útsýnið er ekki upp á marga fiska. Hér horfum við á risastóran grunn og vinnuvélar, gáma og fleira í þeim dúr. Það vill svo vel til að við erum vön þessu frá Jafnakrinum. Við erum búin að fjárfesta í húsgögnum og bölvum genginu í hvert sinn sem við veifum vísakortinu. Við förum sennilega á hausinn við þetta ævintýri en það eru hvort sem er allir á leiðinni á hausinn á Íslandi þannig að við erum bara eins og allir hinir og lifum eftir íslenska mottóinu: Þetta reddast! Þess vegna ætlum við einmitt í Ikea á morgun að kaupa meira. Er farin að gera verðkönnun á þvottasnúrum og bera saman tilboð, þannig að ég fell greinilega vel inn í danskt samfélag ... sit yfir Fötex- og Bilkabæklingum og skoða líka hvað fæst í Jysk. Þetta er voða gaman allt saman.

Hildur byrjar í skóla í næstu viku en við erum ekki búin að velja leikskóla fyrir strákana. Ætlum að gera könnun á þeim á morgun. Annars hafa allir það nokkuð gott. Leifur er sá eini sem er með heimþrá og hann skilur ekki alveg afhverju Kristín Jóna frænka kemst ekki í afmælið hans. Við bökum bara köku þegar hún kemur í heimsókn og höldum mini-fest.

 


Á haus

Jæja, Danmerkurævintýrið hefst á morgun. Við erum búin að pakka - að mestu og erum með allt of mikinn farangur. Við verðum sennilega að leigja okkur rútu þegar við lendum í Köben til að komast með okkar hafurtask á áfangastað!

Krakkarnir eru orðnir spenntir en líka dálítið kvíðnir. Leifur sagði í dag að hann vildi ekki vera lengur á Íslandi en Hildur fékk magapínu og vildi ekki fara í afmælisveislu sem hún var boðin í. Sem betur fer lagaðist hún í maganum og hún skemmti sér vel í veislunni.


Seigur strákur

Rosalega er hann Benedikt seigur að synda yfir Ermasund. Alvörujaxl.
mbl.is Tókst að synda yfir Ermarsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband