Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Safaríferð

Í dag lögðum við land undir fót og fórum í ferðalag til Lollands, sem er hér fyrir sunnan. Fórum með Palla, Júlíönu, Sindra og ömmu Ingu í garð sem heitir Knuthenborg (www.knuthenborg.dk) en þetta er safarígarður þar sem villt dýr gang um laus. Við sáum m.a. kengúrur, strúta, apa af ýmsum stærðum og gerðum, tígrisdýr, nashyrninga, gíraffa, sebrahesta og geitur. Einu dýrin sem við flúðum undan voru þó aðgangsharðir geitungar! Þetta var hin besta ferð og krakkarnir skemmtu sér konunglega.


Ikke i Ikea

Aldrei þessu vant fórum við ekki í Ikea heldur í Skolen ved Bülowsvej sem er nýi skólinn hennar Hildar. Þar tók reffilegur kall á móti okkur og sýndi okkur skólann. Hildur fer ekki í móttökubekk heldur í 1.B. og fær mikinn stuðning til að læra málið. Í bekknum er íslensk stelpa sem hefur verið hér um tíma, en við þekkjum hana ekki. Á tómstundaheimilinu er auk þess íslenskur strákur en ég þekki einmitt mömmu hans. Okkur leist vel á skólann og reyndar leikskóla strákanna líka. Við bjuggumst við hálfgerðum hjöllum, enda búið að vara okkur við en þetta leit allt saman bara vel út. Við sjáum fram á að lífið falli í nokkuð fastar skorður í næstu viku, enda kominn tími til. Svo ætlum við að enda þetta ,,frí" með því að fara í Knuthenborg. Það er opinn dýragarður, eða eitthvað, þar sem dýrin ganga um frjáls og þá er ég auðvitað að meina ljón og tígrisdýr. Hins vegar fær mannfólkið ekki að fara úr bílunum ... nema það ætli sér að breytast í kvöldmat fyrir ljónin.

Að öðru. Jón er helv. sleipur í dönskunni en það vellur upp úr mér þýskan þegar ég opna munninn. Ég hef komist að því að ég er miklu betri í þýsku en ég hélt! Ég byrja stundum setningar á dönsku en enda þær á þýsku. T.d. spurði ég ungan afgreiðslumann hvort han hatte sandaler for so einen Junge. Danskan er í raun miklu einfaldari en þýskan þannig að ég er algjörlega að flækja málin.


Takk!

Takk fyrir allar góðu kveðjurnar í kommentunum. Það er sérlega gaman að lesa þær og ég vona að þið haldið áfram að kommentera og senda okkur skilaboð. Í dag ætlum við að taka upp úr nokkrum kössum. Er hætt að kíkja fyrst á listann hvað er í hverjum kassa, næ bara í þann næsta og tæmi hann. Það er miklu meiri jólapakkastemmning!! Svo þurfum við sennilega að fara í Ikea eina ferðina enn ... við þurfum varla að nota Garminn lengur því við erum farin að rata þangað! Reyndar fórum við í Fields í gær, sem er risakringla. Á heimleiðinni beygði Jón á röngum stað og við sótbölvuðum þeirri vitleysu - þar til við vorum komin á Íslandsbryggju og keyrðum fram hjá Sturlugötu, Reykjavíkurstræti, Egilsgötu og fleiri kunnuglegum götunöfnum. Þetta er virkilega skemmtilegt hverfi sem við ætlum að skoða betur við tækifæri. Svo fórum við fram hjá tívolíinu og miðbænum þannig að vitleysan endað sem skemmtiferð.


Dejligt i Danmark

Þá er maður loksins kominn í samband við umheiminn á ný. Það tekur sem sagt nokkurn tíma að fá nettenginu hérlendis ... Við erum enn að koma okkur fyrir. Íbúðin er mjög fín en útsýnið er ekki upp á marga fiska. Hér horfum við á risastóran grunn og vinnuvélar, gáma og fleira í þeim dúr. Það vill svo vel til að við erum vön þessu frá Jafnakrinum. Við erum búin að fjárfesta í húsgögnum og bölvum genginu í hvert sinn sem við veifum vísakortinu. Við förum sennilega á hausinn við þetta ævintýri en það eru hvort sem er allir á leiðinni á hausinn á Íslandi þannig að við erum bara eins og allir hinir og lifum eftir íslenska mottóinu: Þetta reddast! Þess vegna ætlum við einmitt í Ikea á morgun að kaupa meira. Er farin að gera verðkönnun á þvottasnúrum og bera saman tilboð, þannig að ég fell greinilega vel inn í danskt samfélag ... sit yfir Fötex- og Bilkabæklingum og skoða líka hvað fæst í Jysk. Þetta er voða gaman allt saman.

Hildur byrjar í skóla í næstu viku en við erum ekki búin að velja leikskóla fyrir strákana. Ætlum að gera könnun á þeim á morgun. Annars hafa allir það nokkuð gott. Leifur er sá eini sem er með heimþrá og hann skilur ekki alveg afhverju Kristín Jóna frænka kemst ekki í afmælið hans. Við bökum bara köku þegar hún kemur í heimsókn og höldum mini-fest.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband